Færsluflokkur: Fréttablogg

Eiga stjórnmálamenn að hafa sjálfstæða skoðun

Ef marka má núverandi stjórn ásamt ansi mörgum bloggverjum þá er svarið nei.  Þá sérstaklega ef það er gegn þeirra skoðun.

Persónulega hef ég ekki haft hátt álit á stjórnmálamönnum á síðustu árum því mér hefur fundist að hegðun og ákvarðanir margra þeirra byggist á persónulegum ávinningi innan flokka, eigin fjárhagslegri uppbyggingu eða vinsældarbrölti.

En þegar einn slíkur stígur fram með óvinsæla ákvörðun og gefur upp gilda ástæðu fyrir því (gilda að hans mati og hef ég enga ástæðu til að vantreysta henni) þá rjúka menn upp í gagnrýni á þá ákvörðun og oftar en ekki með fúkyrðum, hótunum ásamt ótrúlegum dónaskap.

Reyndar sérstakt að þegar sumir bloggverjar koma með blogg til stuðnings viðkomandi þingmanns, án þess að þeir séu að verja aðila Selabankans heldur frekar rétt þingmannsins til að hafa sjálfstæða skoðun, þá fljúga fúkyrðin á þá frá aðilum sem áður héldu því fram að nú væri kominn tími á eitthvað annað en flokksræði.

Ég segi fyrir mína parta að þegar stjórnmálamaður stígur fram í einhverju máli og lýsir yfir skoðun sinni með eða gegn því þvert á vilja síns flokks þá tek ég hatt minn ofan fyrir honum.

Reyndar er ég ekki hattamaður "but you get my drift".


mbl.is Taugaveikluð ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það falla grímur.

Þegar mótmælin fóru af stað þá virtist sem fólk úr öllum samfélagsstigum og með mismunandi pólitíska hugsun komu saman til að sýna samstöðu gegn því óréttlæti og aðgerðaleysi sem var í gangi hjá stjórnvöldum og þeim sem höfðu áhrif á uppgjör vegna hrunsins.

Japl og þvaður fór loks í einhver alvöru mótmæli sem á stuttum tíma leiddi það af sér að annar stjórnmálaflokkurinn fór af taugum og flúði í faðm VG.

Mótmælin héldu áfram en það snarfækkaði í mótmælahópnum.  Annað sem greinilegt er að bloggfærslur um mótmælafundina,  um 'samstöðuna' sem fólk yrði að sýna, hurfu eins og dögg fyrir sólu.  Fyrir stjórnarslit þá var ávallt aragrúi af færslum tengdar mótmælafundinum og atburðum dagsins en nú þegar ég rita voru einungis komnar 4. sem tengjast þeim sem voru í dag.

Það er því óhætt að álykta að meginþorri mótmælenda og skipuleggjendur þeirra tengdust stjórnmálaflokkum og þá sérstaklega vinstri væng þeirra.  Bloggverjar sem helst rituðu með mótmælendum þaga nú í gagnrýni gegn stjórninni.  Heyrist reyndar oft í þeim að tala um að 'gefa meiri tíma' og svona en ekki var nú þolinmæðin mikil í október eða síðan.  Var þetta einungis plott hjá vinsti mönnum til að komast til valda ?

Þetta sýnir mér að bróðurpartur þjóðarinnar er enn fastur í sínu flokkabulli og á meðan það varir munu engar almennilegar lausnir á vanda okkar íslendinga birtast. 

Hvernig viðrar í Kanada núna GetLost

 


mbl.is Tuttugasti útifundurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lituð yfirlýsing ?

Ég get ekki tekið fyllilega undir þessari yfirlýsingu Radda Fólksins.  Þar innan finnst mér ekki vera nægilega ígrunduð atriði og litast frekar af persónulegum skoðunum þeirra sem sitja í innsta hring.

Vona í það minnsta að séu fleiri en einn aðili sem kom að þessari yfirlýsingu.

Þau atriði sem ég fæ smá óbragð yfir ætla ég að telja hér upp:

"Ástæða sé til að benda á að fyrrverandi viðskiptaráðherra hafi séð sóma sinn í að axla pólitíska ábyrgð og viðurkenna þátt sinn í efnahagslegri óstjórn fráfarandi ríkisstjórnar en fyrrverandi forsætisráðherra hverfi frá völdum nauðugur viljugur, án þess að biðja þjóðina afsökunar á axarsköftum sínum."

Ég tel að Björgvin hafi vitað í hvað stefndi með slit stjórnarsamstarfsins.  Hann er í innsta hring og þessi aðgerð hans mun líklega bjarga pólitískri framtíð hans.  Þannig að tal um sóma er að mínu mati frekar fljótfærislegt að álykta.  Pólitískur leikur var það fyrsta sem mér datt í hug og eftir atburði dagsins er ég enn frekar viss um að sé helsta ástæða afsagnar.  Þó er aðgerð hans að hreinsa til í FME mjög góð, en hefði átt að gerast snemma í október.

Í setningu um fyrrverandi forsætisráðherra  hefði gjarnan mátt spyrða við hana ISG ásamt öðrum ráðherrum.  Þó Geir hafi verið í forsvari þá hefði gjarnan mátt minnast á þátt hinna.  Þetta voru sameiginlegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar.  Allir innan hennar bera ábyrgð.

"Soldáninn á Svörtuloftum...........Hann hefur treyst á tangarhald sitt á fráfarandi forsætisráðherra og beitt siðleysi og blekkingum til að breiða yfir eigin valdníðslu og landráð."

Hvað var þetta Shocking  Tangarhald á Geir ?  Hvaða tangarhald ?  Koma með eitthvað sem styður þessa fullyrðingu.  Og síðan þessi setning um siðleysi, blekkingu, valdníðslu og landráð.  Skín í gegn persónuleg óþökk á Davíð Oddssyni.  Ég hefði trúað svona setningu á bónusfeðga í tengslum við meinta aðför hans á þeim en ég get ómögulega trúað að sé skoðun 80% þjóðarinnar.  Ömurlegt að lesa þetta þarna inni og dregur stórlega úr minni trú á sanngirni og pólitísku hlutleysi Raddar Fólksins.

Ég get tekið undir skoðun þeirra sem telja að í forsvari Seðlabankans eigi að vera aðili sem ekki kemur úr stjórnmálum heldur einhver sem er valinn þar inn vegna reynslu og virðingar innan fjármálageirans.  Einnig að endurskoða þurfi valdakerfi íslenska lýðveldisins frá grunni.  Og ég vona að stjórnmálamennirnir komi sér úr sínum vinsældarkapphlaupagír og fari að koma með ákvarðanir sem hjálpa okkur íslendingum úr þeim vanda sem nú er og verður næstu mánuði.

Enn og aftur segi ég....spennandi tímar GetLost


mbl.is Áfangasigrar í langri baráttu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hópslagsmálum ? Við skemmtistaði ?

Er kannski eitthvað einfaldur en ég skil ekki fréttina alveg.  Voru mörg hópslagsmál í gangi og þá staðsetningin við hina ýmsu skemmtistaði?

Ég smellti á þessa frétt og bjóst alveg eins við að allt hefði verið logandi í slagsmálum í miðbæ Reykjanesbæjar en þetta kemur bara út eins og einhverjir pústrar hafi orðið sem leystust mjög fljótt.

Síðan áttaði ég mig á að það var ekki verið að tala um Reykjanesbæ heldur bæjarfélagið "Suðurnes" sem ég kannast reyndar ekki við að sé til.  Voru slagsmál þá út um öll Suðurnesin, í Reykjanesbæ, Grindavík, Sandgerði, Garði og Vogum?

Engin "teljandi" meiðsli kemur síðan.  Hvað er teljandi meiðsli.  Svöðusár eða stoltmissir? Og dregur það ekki enn úr alvarleika slagsmálanna og þá fréttarinnar að engin meiðsl urðu, ef maður dregur þann skilning úr þessu?

Dæmi þetta því sem "ekki frétt" og alger óþarfi að birta hana nema betri upplýsingar fylgi henni.

 edit:: Það hefur þó verið bætt úr með því að setja inn Reykjanesbæ.  Það er þó gott Wink


mbl.is Hópslagsmál á Suðurnesjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hátíðarræða ?

Kannski slæmt orð yfir þá ræðu sem Katrín hélt á mótmælafundinum.  Frekar tækifærisræða, til þess gerð að hún falli vel í þá mótmælendur sem á hlýddu.

Því meira sem fagnað var orðum ræðumanns því harðorðaðri varð hún og kemur með ýmsar misvaldar setningar.  Í hita leiksins er ekki ólíklegt að hún missi sjónar á staðreyndum en þess í stað komi sterkt inn órökstudd mat hennar á aðstæðum séð frá tilfinningum.

Mjög skiljanlegt því fáir eru þeir íbúar landsins sem sitja rólegir yfir þeim aðstæðum sem hent hafa okkur íslendinga.   Og ekki batnar ástandið við litla sem enga haldbæra upplýsingagjöf ásamt því að það virðist sem sama liðið innan fjármálageirans, sem kom okkur í þessa slæmu stöðu, sé þar enn að hræra í "nýja" pottinum og í leiðinni að skenkja sér og sínum bestu bitana.

Ég skil vel að nemar innan lagadeildar HR séu ekki ánægðir með athyglina sem Katrín og ræða hennar hefur fengið.  Þó ég sé ekki lögfræðimenntaður þá var svo gríðarlega margt sem var í ræðu hennar "út úr kú" að það hálfa væri nóg og langt frá nokkru sem kallast getur lögfræðiálit.

Háskólinn í Reyjavík hefur minn stuðning í þessu máli öllu því eins og kemur fram í yfirlýsingu þeirra, þá er ræða Katrínar birt undir "HR-ingar í fjölmiðlum" og þar með ekkert óeðlilegt að á þennan atburð sé minnst og þá sérstaklega hennar hluti af honum.

 


mbl.is Ræða Katrínar ekki tekin út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáum kosningar, nýjan gjaldmiðil....

...og meðan við stöndum í því af hverju ekki að stofna bara nýtt lýðræðisríki.  Gefum Ísland upp á bátinn.  Hugsanlega að brjóta upp landið í mörg smáríki og kalla síðan landið Bandaríki Íslands.

Ég skil ekki alveg hvað fólk er að hugsa í þessari skelfilegu aðstöðu sem Ísland er komið í.  Trúandi því að útskipti á ráðamönnum eða upptaka annars gjaldmiðils muni snúa þessari stöðu við á augabragði, eins og staðan er akkúrat núna.

Heldur fólk virkilega að ástandið batni ef einhverjir aðrir innlendir stjórnmálamenn taki við stjórnartaumunum ? Að þeir hafi einhvern möguleika að gera eitthvað meira og betur ? Það er alls ekki á það bætandi við ástandið að rjúka í kosningar.  Við vitum öll hvað fylgir svoleiðis ásamt því að kosning og umskipti stjórnsýslu fer ekki fram á einhverjum dögum heldur vikum og mánuðum.

Það virðist vera, samkvæmt mínu mati , að það sem er að grafa mest undan okkar þjóðfélagi eru þessir sparifjárreikningar í útlöndum og túlkun um hverjir beri ábyrgð á útborgun úr þeim.  Á meðan ekki er leyst úr þeim vandamálum þá fáum við engan stuðning frá þeim löndum þar sem fólk hefur tapað fjárhæðum.

Og á meðan það er ekki gert þá eru hendur stjórnar Íslands, sama hver kæmi þar inn, bundnar.  Mig grunar að fæstir vilji sjá að látið verði eftir kröfum breta og hollendinga sem myndu setja þjóð okkar í skuldbindingar til áratuga.  Og ef gefið verður eftir þar þá fylgja hin löndin eftir með sömu kröfu.


mbl.is Haldist í hendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Segir meira um stjórnendurna...

...og nota bene um útrásavíkingana.  Þriðja dauðasyndin hefur hreinsað burt allt eðlilegt siðferði úr þessum mönnum og þeim var sama um starfsmenn og viðskiptavini.

Ætli víkingarnir gráti hvernig er komið fyrir íslensku þjóðinni um þessar mundir.  Held að tilbiðsla þeirra á Mammon sé mun sterkari en nokkur sektarkennd yfir þeirra hlut á ástandi okkar um þessar mundir.

Einkennilegt samt að upplýsingafulltrúinn hafi ekki komið fyrr fram með þetta, þá sérstaklega áður en félagið fór opinberlega á hliðina.  Hefði hugsanlega getað forðað einhverjum viðskiptavininum mikil vandræði.

Jæja, þá kom ég smá útloftun á mínu 'pirri' yfir ástandinu frá mér.  Líður strax betur  Wink


mbl.is Rekin fyrir að segja ekki ósatt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarna er komin ástæðan fyrir hruni bankanna

Í það minnsta ef menn horfa á þetta útfrá ósönnuðum samsæriskenningum.

Getur hugsanlega verið, að vegna dræms áhuga frá íslensku þingmönnum í september, þá hafi ESB og þau ríki innan þess tekið sig saman og hrint af stað atburðarrásinni með því að loka fyrir lánalínur til Íslands og íslenskra banka ?  Tilgangurinn auðvitað að neyða okkur til viðræðna og aðildar.  Og fá þá í leiðinni óheftan aðgang að fiskimiðunum og náttúrulegri orku.

Enda ef myndin af Olla er skoðuð þá er hann ansi ísmeygilegur á svipinn.

Langsótt en maður spyr sig.  Þó tel ég persónulega að tilgangurinn hafi verið að draga okkur neðar í listanum yfir ánægðustu þjóðir heims.  Þar höfum við verið öfundsverð til fjölda ára.

 "Vill reyndar taka fram, svo gæti ekki misskilnings, að ofanritað er bull og þvæla og ætti alls ekki að taka alvarlega.  Ef svo óheppilega vill til að skapi milliríkjadeilu vegna lélegrar þýðingar þá frábið ég að hafa nokkurn tíma skrifað eða hugsað þetta"


mbl.is Ítrekar að Ísland fengi hraðferð inn í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar tveir deila.....

....hefur þá aðeins einn rétt fyrir sér ?

Ég viðurkenni að hafa ekki sett mig inní þetta mál þegar það hófst.  En ég hef þó undanfarið aðeins lagt á mig að skoða það frá ýmsum hliðum.

Ég geri mér grein fyrir, ég hef nú fleiri en eina heilafrumu, að sá rekstrarhalli sem á embættið hefur bæst er vel skiljanlegur.  Aukin glæpatíðni á Suðurnesjum og í framhaldi sú vinna sem lögð var fram í að vinna á henni kostaði örugglega dágóðann skilding.

Það er því erfitt að sjá að það sé vegna kostnaðarauka sem þessi nýjasta útfærsla ríkisins og þá Björns er, með því að aðskilja embættin, því ef ég þekki stofnanir ríkisins rétt þá þarf við hvert nýtt embætti nýjan yfirmann, undirmann ásamt starfsfólki umhverfis stjórnendur.  Aukning mannforða hefur hingað til ekki verið til sparnaðar, í það minnsta samkvæmt mínum útreikningi.  Sem er reyndar ekki til að hrópa húrra fyrir ef teknar eru einkannir úr skóla.

Það er frá mér séð alveg greinilegt að Björn Bjarnarson er að framkvæma þessar breytingar að eigin geðþótta, reyndar hans hlutverk sem ráðherra að gera breytingar þar sem þess er þörf innan hans ráðuneyti, en þessi nýjasta ákvörðun ER hans útspil til að losa sig við Jóhann.

Eftirfarandi setning segir allt sem segja þarf um Björn og hans aðkomu í þessu máli, og ekki annað að sjá en að sé nett skot á Jóhann:

Óbeint er Björn að segja að Jóhann sé enn í fýlu vegna eigin launamissis sem átti sér stað við sameiningu embættanna 2007 og sé að einhverju leiti ástæða uppsagnar hans núna.  Í það minnsta skil ég þessa setningu þannig.

En það er víst hægt að lesa ýmislegt úr orðum og setningum.  Í það minnsta er það að sjá á svörum og mótsvörum í þessu máli öllu.  Þannig að það er hugsanlegt að þegar tveir deila þá hafa báðir rétt fyrir sér.

En ég verð samt að segja að frá mínum bæjardyrum séð þá kemst Jóhann með mun meiri reisn frá þessu máli öllu.  Í það minnsta hingað til.

e.s.

Vill samt hrósa Birni fyrir að halda úti bloggi um sín störf.


mbl.is Jóhann er toppmaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neikvæðni

Í svona stóru bæjarfélagi þar sem einnig hefur fjölgað vegna gesta úr öðrum byggðarlögum, þá finnst mér "slagsmál og pústrar, en engin er alvarlega slasaður" ekki merkilegt.  Eða að eingöngu 4 hafi gist fangageymslur.  Ekkert verra heldur en venjulega helgi.

Ég skoðaði mbl.is í gærkveldi og sá enga frétt af Ljósanótt þar, né heldur í morgun, nema auðvitað þessa frétt sem reyndar var ekkert eyrnamerkt hátíðinni .

Hefði ég gjarnan viljað sjá einhverja umfjöllun um þá atburði sem tengdust dagskrá hátíðarinnar heldur en eitthvað svona, en verð víst að sætta mig við það að sumir fréttamenn hafa eingöngu áhuga á að fjalla um neikvæða hluti

Vil ég koma með smá viðbót á fréttina sem birtist á vef Víkurfrétta um sama hlut. Mjög keimlík og frétt mbl.is en áframhald er á greininni:

"Lögreglumenn voru mjög sýnilegir á hátíðarsvæðinu í gær, klæddir neonlitum vestum. Miðað við þann mikla fólksfjölda sem var við hátíðarhöldin við Ægissvið í gærkvöldi þá var óverulegur fjöldi með áfengi í hönd. Umræða sem og áskorun til foreldra og fjölskyldufólks um að gera hátíðina að fjölskylduvænni hátíð virðist vera að skila sér."

Fréttin í heild er hér: Fjórir gista fangageymslur lögreglunnar

Hugsanlega liggur munurinn á að það er heimamaður sem skrifar fréttina á vef Víkurfrétta.


mbl.is Annríki hjá lögreglunni á Suðurnesjum í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband