Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Lituð yfirlýsing ?

Ég get ekki tekið fyllilega undir þessari yfirlýsingu Radda Fólksins.  Þar innan finnst mér ekki vera nægilega ígrunduð atriði og litast frekar af persónulegum skoðunum þeirra sem sitja í innsta hring.

Vona í það minnsta að séu fleiri en einn aðili sem kom að þessari yfirlýsingu.

Þau atriði sem ég fæ smá óbragð yfir ætla ég að telja hér upp:

"Ástæða sé til að benda á að fyrrverandi viðskiptaráðherra hafi séð sóma sinn í að axla pólitíska ábyrgð og viðurkenna þátt sinn í efnahagslegri óstjórn fráfarandi ríkisstjórnar en fyrrverandi forsætisráðherra hverfi frá völdum nauðugur viljugur, án þess að biðja þjóðina afsökunar á axarsköftum sínum."

Ég tel að Björgvin hafi vitað í hvað stefndi með slit stjórnarsamstarfsins.  Hann er í innsta hring og þessi aðgerð hans mun líklega bjarga pólitískri framtíð hans.  Þannig að tal um sóma er að mínu mati frekar fljótfærislegt að álykta.  Pólitískur leikur var það fyrsta sem mér datt í hug og eftir atburði dagsins er ég enn frekar viss um að sé helsta ástæða afsagnar.  Þó er aðgerð hans að hreinsa til í FME mjög góð, en hefði átt að gerast snemma í október.

Í setningu um fyrrverandi forsætisráðherra  hefði gjarnan mátt spyrða við hana ISG ásamt öðrum ráðherrum.  Þó Geir hafi verið í forsvari þá hefði gjarnan mátt minnast á þátt hinna.  Þetta voru sameiginlegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar.  Allir innan hennar bera ábyrgð.

"Soldáninn á Svörtuloftum...........Hann hefur treyst á tangarhald sitt á fráfarandi forsætisráðherra og beitt siðleysi og blekkingum til að breiða yfir eigin valdníðslu og landráð."

Hvað var þetta Shocking  Tangarhald á Geir ?  Hvaða tangarhald ?  Koma með eitthvað sem styður þessa fullyrðingu.  Og síðan þessi setning um siðleysi, blekkingu, valdníðslu og landráð.  Skín í gegn persónuleg óþökk á Davíð Oddssyni.  Ég hefði trúað svona setningu á bónusfeðga í tengslum við meinta aðför hans á þeim en ég get ómögulega trúað að sé skoðun 80% þjóðarinnar.  Ömurlegt að lesa þetta þarna inni og dregur stórlega úr minni trú á sanngirni og pólitísku hlutleysi Raddar Fólksins.

Ég get tekið undir skoðun þeirra sem telja að í forsvari Seðlabankans eigi að vera aðili sem ekki kemur úr stjórnmálum heldur einhver sem er valinn þar inn vegna reynslu og virðingar innan fjármálageirans.  Einnig að endurskoða þurfi valdakerfi íslenska lýðveldisins frá grunni.  Og ég vona að stjórnmálamennirnir komi sér úr sínum vinsældarkapphlaupagír og fari að koma með ákvarðanir sem hjálpa okkur íslendingum úr þeim vanda sem nú er og verður næstu mánuði.

Enn og aftur segi ég....spennandi tímar GetLost


mbl.is Áfangasigrar í langri baráttu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðburðaríkir dagar.....

.....og ekki sér fyrir endann á þeim.

Ég er nokkuð ánægður með þjóðina að þessu sinni.  Það virðist að loks eru stjórnvöld að leggja við hlustirnar.  Og það vegna þess að mótmælin "fóru úr böndunum" en erfitt er að sjá að hafi virkilega farið úr einhverjum böndum.  Frekar að fólk sá að ræður og klapp niðrí miðbæ hafði lítil áhrif og breyttu aðferð mótmælanna.  Í það minnsta frá mér séð fór skriða breytinga ekki af stað fyrr en eftir að mótmælaaðferð breyttist.

En ég er hræddur um að nú fara af stað tímar þar sem ákvarðanir og yfirlýsingar litast af undirbúningi og framboði vegna kosninga.  Flestir stjórnmálamenn haga seglum eftir hvað er vinsælast hverju sinni.  Koma ekki með tillögur til lausnar nema með óljósum setningum og frösum sem líklegt er að falli vel í kjósendurna.

Þingmenn VG hafa reyndar gert þetta nánast frá upphafi hrunsins.  Enda með hegðun og yfirlýsingum hafa þeir flestir ekki gefið mér tiltrú á að þeim sé treyst fyrir nokkru. Standa þar Ögmundur og Steingrímur J. fremst.  Ég tel að innan VG mætti fara fram hreinsun eins og háværar raddir innan hinna stóru flokkana heimta í sinni forystu.

Núna mættu mótmælin fara að snúast meira um að losa þjóðina við landráðamennina sem enn starfa innan fjármálageirans.  Ég vill sjá árangur af rannsóknum sem hafa verið að sýna fram á föðurlandssvik hjá aðilum sem enn virðast geta gengið um frjálsir og eru enn að fela sín svik.  Aðilar sem enn eru að flytja og fela fjármuni í erlendum ríkjum.

Eru virkilega engar reglur til sem gera ráðamönnum kleyft að frysta eignir hjá þessum aðilum á meðan rannsókn stendur yfir ?

Ég kalla einnig eftir lausnum á vanda þeirra sem eru að kikna undan skuldum.  Öðrum lausnum en þeim sem gera þá einungis enn skuldugri þar sem lánið er fryst en höfuðstóll hækkar.

Viðburðarríkir dagar og verður spennandi að fylgjast með fréttum næstu daga.  Vonandi verða breytingar til góðs og gefi þjóðinni tilefni til bjartsýni.  Ekki veitir af.

 

 


Fyrirsjáanlegur atburður.

Þar kom að því.  Loks var búið að hita nægilega undir pottinum til að syði uppúr.  Atburðurinn í dag við alþingishúsið var viðbúinn.  Var fyrirsjáanlegur hverjum þeim sem vildi sjá.  Í það minnsta kom hann mér ekki á óvart.

Það sem kom mér reyndar á óvart var stilling mótmælenda.  Þá á ég auðvitað við heildina.  Það er alls ekki óeðlilegt, hreint út sagt er það mannlegt, að einhverjir missi stjórn á aga sínum í svona stórum hópi.  Jafnvel að hreinlega mæti á staðinn til þess eins að skapa glundroða.

Það er einnig vitað að börn og unglingar mæta þarna líka og innan þess hóps eru nokkur sem ekki hafa fullmótaðan þroska til að halda aftur af sér.  Hugsanlega mættu einhverjir sem vit hafa meira gert tilraun til að stoppa þau af, hefur sennilega gerst, og koma þeim í skilning um að gera ekki einhvern óskunda sem gæti meitt aðra.  En erfitt er að halda aftur af snöggum ungling sem skyndilega grípur til steins og kastar í sömu andrá.

Vatn á myllu þeirra mótmælenda mótmælanna sem einblína á steinkastara en horfa framhjá hinum almenna borgara sem mættur er á staðinn og jafnvel ástæðu mótmælanna.  

Misjafn sauður er í hverju fé.

Og þar er lögreglan svo sannarlega ekki útundan.  Það vita það allir að þar innanum eru menn sem  haldnir eru skapofsa sem þeir ráða ekki við.  Sá sem neitar því býr í einhverri útópíu, la-la landi eða í enn meiri firru.  Stór hluti lögreglumanna hér á Íslandi myndu halda ró sinni þótt ýtt væri við þeim þúsund sinnum.  En það eru þessir með stutta þráðinn sem gera ávallt illt verra.

Ýmsar sögur hafa borist af ógnvænlegu ofbeldi laganna varða þar sem kvenfólk og miðaldra menn urðu fyrir barðinu á kylfuberum sem virkilega reyndu að meiða þau.  Fólk sem stóð í fjarlægð og var að fylgjast með en á leið í burtu.  Áttu engan möguleika að flýja vel þjálfaða verði, sem 'nota bene' eiga einnig að verja þau, þeir hlupu þau uppi og börðu.

Ég vona innilega að fólk geri eins og lögreglustjórinn benti á í Kastljósi.  Kæra ofbeldi lögreglumannanna.  Hann sagði einnig í sama þætti að það ætti ekki að beina piparúðanum beint að vitum fólks.  Það er röng aðferð sagði hann.  Samt gerðu nokkrir laganna verðir þveröfugt.  Kæra það líka.  Það eru til myndir af þessu sem sýna hvar skapofsamennirnir innan lögreglunnar hreinlega miða á og sprauta í andlitið á fólki.  Kæra en halda til haga öllum þeim gögnum sem og yfirlýsingum til haga í þeiri von að einhver dugnaðarforkur tekur sig til, safnar saman upplýsingunum og birti ef málin "týnast" í kerfinu.

Ég vona að loks vakni nú stjórnvöld og geri eitthvað í upplýsinga- og aðgerðaleysi sínu gegn því arðráni sem átt hefur sér stað.  Þeim mun lengur sem þeir bíða með það þeim mun hættulegra verður ástandið.  Ástand þar sem ég er hræddur um að sár augu eða blóðug höfuð verði talið smámál miðað við þau líkamlegu meiðsl sem koma úr því.

Já, það sauð uppúr pottinum.  En er þá ekki kominn tími til að lækka á hitanum og taka lokið af ?  Það kemur í ljós á næstu dögum en miðað við reynslu síðustu 100+ daga þá verður horft framhjá þessu, dæmt sem skrílslæti af veruleikafirrtu fólki, og mótmælin verða harðari.

Spennandi tímar GetLost

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband