Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
Allt að fara fjandans til
12.12.2008 | 18:14
Síðustu 2 mánuði hafa dunið á mann fréttir sem gefa manni ekki tilefni til bjartsýni með áframhaldandi fjárhagslegt sjálfstæði meirihluta þjóðarinnar. Maður sér fyrir sér hrun samfélagsins eins og það er í dag.
Gengislækkun krónunnar, uppsagnir, hækkun vöruverðs, vaxtahækkanir ofaná hækkun vísitölutengdra lána, og enn sér ekki fyrir endann á því bölæði sem er að dynja á íslendinga. Helstu aðgerðir stjórnvalda er að hækka skatta og draga úr þjónustu sem bitnar á þeim sem síst skildi.
Fórnarlambið eru hinn almenni borgari sem reynir af besta megni að draga fram lífið dag frá degi. Sá hinn sami sem fékk eingöngu nasaþef af þeirri uppsveiflu síðustu ára þar sem öfgar í lifnaði þeirra sem mesta kjötið fengu úr súpunni fóru sem hæst.
Líkleg afleiðing verður mikil aukning fátæks fólks sem rétt nær að skrimta af þeim afgangi launa sem þau fá ef svo lánsöm að hafa atvinnu.
Ráðamenn hafa algerlega misst nokkuð sem heitir tengsl við hið raunverulega líf vegna eigin verðmats sem byggir á velmegun sem þeir hafa skammtað sér í gegnum starf og tengsl. Og því er ólíklegt að þeir komi nokkru frá sér til að forðast ástand það sem ísland, með litlum staf, siglir með hraðbyri inní.
Ástand það sem ég er ansi hræddur um að verði er að skipting auðvalds verður miklu mun meiri en er í dag (nægt var það fyrir) og gríðarleg fátækt hjá stórum hluta þjóðarinnar. Í það minnsta hjá þeim sem eftir sitja því fólksflóttinn verður mikill. Aukning skulda ásamt minni tekjum gerir það að verkum að fólk hreinlega nær sér ekki úr því feni. Minni tekjur þýðir einnig minni neyslu og í framhaldi hrynja fyrirtæki sem sinna innanlandsmarkaði.
Maðurinn er þannig gerður að mun gera allt sem hann getur til að lifa. Undirheimamenning mun verða sterkari með sínum glæpum og svartamarkaðsbraski. Lögmál frumskógarins. Skipulögð glæpastarfsemi mun ná yfirráðum og styrkjast með hinu illa sem henni fylgir.
Sjálfsmat þjóðarinnar er þegar að hruni komið og ekki er langt að bíða að siðferði falli hjá mörgum. Þegar er farið að bera á fleiri þjófnuðum þar sem fólk er eingöngu að næla sér í nauðsynjar. Stutt er í ofbeldi hjá fólki því ólga liggur sterk innanbrjóst og þarf lítið til að hún brjótist út.
Ég held enn auðvitað í vonina. En því meira sem traðkað er á almúganum úr öllum áttum því meir minnkar mín von að þjóðfélagið nái sér úr þessu ástandi innan fárra mánaða eða ára. Tel það frekar í áratugum.
Bloggar | Breytt 2.1.2009 kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)